Siðareglur stjórnar
1. Gildissvið og markmið
Siðareglur þessar gilda fyrir stjórnarmenn Langasjávar ehf. og dótturfélaga þess: Ölmu íbúðafélag hf., Freyju ehf., Mata hf., Matfugl ehf., Salathúsið ehf., Síld og fisk ehf. og Verkgarða ehf. Þær gilda jafnt um aðalmenn sem varamenn stjórnar.
Reglurnar skilgreina þá háttsemi sem stjórnarmenn samstæðunnar skulu sýna af sér í störfum sínum. Markmið reglna þessara er að stuðla að góðu viðskiptasiðferði innan stjórnar og styðja við sjálfbærnimarkmið samstæðunnar.
Siðareglurnar skulu endurskoðaðar að lágmarki á tveggja ára fresti, eða oftar ef tilefni þykir til.
2. Hagsmunaárekstrar
Stjórnarmenn skulu ávallt hafa hagsmuni félagsins að leiðarljósi og taka ákvarðanir í samræmi við það. Þeir skulu forðast hvers konar hagsmunaárekstra milli sjálfra sín eða tengdra aðila og félagsins.
3. Trúnaðarskylda
Stjórnarmenn eru bundnir þagnarskyldu um öll þau málefni sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum og leynt skulu fara samkvæmt lögum, eðli máls eða ákvörðun stjórnar. Þeir bera einnig ábyrgð á því að slík trúnaðargögn berist ekki þriðja aðila. Þagnarskyldan heldur gildi sínu þó að stjórnarmaður láti af störfum.
4. Trúnaðarupplýsingar
Stjórnarmönnum er óheimilt að nýta trúnaðarupplýsingar sem þeir hafa fengið aðgang að í þágu eigin hagsmuna eða annarra. Allar upplýsingar sem ekki eru opinberar skulu teljast trúnaðarupplýsingar.
5. Viðskiptagjafir og mútur
Stjórnarmönnum er óheimilt að þiggja gjafir, fríðindi eða önnur verðmæti frá viðskiptavinum, væntanlegum viðskiptavinum eða öðrum hagsmunaaðilum. Undantekning er gerð fyrir jólagjafir og sambærilegar tækifæriskveðjur að því gefnu að verðmæti þeirra sé hóflegt og ekki til þess fallið að hafa áhrif á ákvarðanatöku eða skapa tortryggni um hlutleysi stjórnarmanns.
6. Ákvarðanataka
Ákvarðanir stjórnar skulu byggjast á faglegu og heildstæðu mati á fyrirliggjandi upplýsingum. Stjórnarmenn skulu leitast við að afla sér nægjanlegra upplýsinga áður en ákvarðanir eru teknar.
7. Vanhæfi
Komi upp aðstæður sem kunna að valda vanhæfi, eða ef vafi leikur á hæfi stjórnarmanns, skal viðkomandi tilkynna það til stjórnar. Þá tekur stjórnin ákvörðun um hvort hann skuli víkja tímabundið frá viðkomandi máli. Stjórnarmaðurinn tekur hvorki þátt í umræðu né ákvörðun sem varðar hans hæfi.
8. Fylgni við lög og reglur
Stjórnarmenn skulu kynna sér og virða þau lög, reglugerðir og innri reglur sem gilda um starfsemi félagsins. Verði stjórnarmaður var við mögulegt misferli skal hann tilkynna það tafarlaust til regluvarðar félagsins.
9. Eftirfylgni og staðfesting
Með undirskrift sinni staðfesta stjórnarmenn að þeir undirgangist þessar siðareglur og muni hafa þær að leiðarljósi í störfum sínum fyrir félagið.
Samþykkt af stjórn Langasjávar ehf. þann 26. nóvember 2024
Undirritað:
Guðný Edda Gísladóttir
Eggert Árni Gíslason
Gunnar Þór Gíslason
Halldór Páll Gíslason